mánudagur, nóvember 20, 2006

Gervigrasið í góðu standi

Það er búið að ryðja snjóinn af gervigrasinu og hitakerfið undir grasinu sér til þess að völlurinn er í toppstandi og ekkert því til fyrirstöðu að æfingin á morgun, þriðjudag, verði eins og venjulega.

Bara um að gera að smella strákunum í auka sokka, jafnvel ullarsokka, og sjá til þess að þeir séu með húfu og vettlinga.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Æfing þrátt fyrir ófærð

Ef einhver var að velta því fyrir sér á síðustu stundu, hvort það yrði æfing í Víðistaðaskóla í dag - þá er svarið JÁ!

Æfingarnar í Víðistaðaskóla er tækifæri fyrir mig að fara aðeins dýpra ofan í vissa hluti með strákunum svo þó að mætingin yrði einhvern tímann ekki nema upp á fjóra stráka þá sé ég það bara sem tækifæri til að taka viðkomandi í "einkakennslu" og veita miklu meiri athygli en ég venjulega get gert.

Ég minni aftur á foreldrafótboltann næsta sunnudag. Strákarnir fá miða heim með sér í vikunni.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Foreldrafótbolti 26. nóvember

Sunnudaginn 26. nóvember verður foreldrafótbolti á æfingatímanum í Víðistaðaskóla. Við hitum upp í nokkrum leikjum og síðan verður spilað foreldrar á móti sonum. Til að jafna leikinn örlítið ætla ég að biðja foreldra um að draga fram þykkustu lopasokkana sína og mæta með í leikinn. Enginn foreldri fær að spila með nema að vera í hnausþykkum lopasokkum eða einhverju öðru álíka heftandi! :-)

Fyrirkomulag æfinganna verður óbreytt: yngra árið og foreldrar þeirra mæta kl. 12:00 og eldra árið mætir kl. 13:00 ásamt foreldrum sínum.

Nú er um að gera að hvetja strákana og sýna íþróttaiðkun þeirra verðskuldaðan áhuga. Mætum öll og höfum gaman!

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Aðstoðarþjálfarinn líklega með æfingarnar

Aðstoðarþjálfarinn minn, hann Hilmar Emilsson, mun líklega sjá um æfingarnar í Víðistaðaskóla í dag. Þrátt fyrir brjálað veður mun 6.flokkur kvenna, sem ég er einnig að þjálfa, spila á æfingamóti hjá ÍR sem er á sama tíma og 7.flokks karla æfingarnar.