miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Vel heppnað Reykjanesmót

Hraðmótið í Reykjaneshöllinni tókst með ágætum. Skipulagið á mótinu var kannski ekki upp á tíu en slapp svo sem. Skipulagið á Haukastrákunum var hins vegar stórfínt og því vil ég fyrst og fremst þakka góðri mætingu foreldra, sem voru örugglega hátt í 50 talsins, og svo góðri hjálp frá Birni (pabba Fannars), Ingvari (pabba Arnórs) og Bjarna (pabba Natans) sem stýrðu hver sínu liðinu með miklum sóma. Kærar þakkir fyrir hjálpina. Það er klárt mál að það verður eintómt fjör að fara með þessum flotta hópi stráka og foreldra á mót í sumar.

Það sást á strákunum að þeir eru ekki alveg komnir í leikæfingu og fannst mér þeir flestir vera ögn smeykir í fyrstu 1-2 leikjunum. Þeir voru reyndar ekki lengi að taka við sér og voru farnir að spila í seinni leikjunum eins og ég þekki þá. Það má ekki horfa fram hjá þeirri jákvæðu staðreynd að allir voru þeir mjög einbeittir í leikjunum og þurfti lítið að aðstoða þá við það að hafa hugann við boltann. Þetta er alls ekki sjálfgefið með svona litla gutta.

Haukaliðunum var skipt í 4 lið á mótinu sem öll hétu í höfuðið á evrópsku stórliði: Arsenal, Barcelona, Chelsea og Liverpool.

Barcelona í brjáluðu stuði
Efri röð: Emil (aðstoðarþjálfari), Kasper, Elís, Karl, Ísak
Neðri röð: Óskar Aron, Magnús, Þórir, Þórður og Kristófer.
Liverpool frekar íbyggnir á svip
Efri röð: Aron Freyr, Kristján Kári, Mikael, Ragnar Ingi, Hilmar Hennings
Neðri röð: Haraldur, Anton, Magnús, Hilmar og Kristján Ómar (þjálfari)
Geggjuð mynd af Chelsea
Efri röð: Símon, Jóhann, Fannar og Natan Snær
Neðri röð: Kristján Ómar (þjálfari), Óliver, Ólafur Atli, Egill, og Daníel Freyr
Arsenal í góðum fíling
Efri röð: Þórður Alex, Orri, Aron og Arnór
Neðri röð: Kristján Ómar (þjálfari) Marteinn, Ólafur, Hilmar Dagbjarts, Andri og Bjartur


Nú ætlar þjálfarinn að halda áfram og hamra járnið á meðan það er heitt og því er í pípunum æfingaleikur við FH uppi í Risa, sunnudaginn eftir 11 eða 18 daga - það kemur í ljós mjög bráðlega. Fylgist með.

Ef einhverjir eiga góðar myndir af mótinu þá megið þið endilega senda mér þær á netfangið sem er gefið upp hérna til hliðar. Ég held að það hafi verið pabbi Ísaks (Jón ef ég man rétt) sem var með upptökuvél á staðnum þegar Elís, sem þá stóð í marki hjá Barcelona, átti mögnuð tilþrif sem fólu í sér að hlaupa með boltann í höndunum aðeins of langt út á völlin :). Ef einhver á þetta atriði á kvikmynd þá væri ég spenntur fyrir því eignast það.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Varðandi Reykjanesmótið

Það eru nokkur atriði foreldrar mega hafa í huga varðandi Reykjanesmótið núna á sunnudaginn:

1 - Ég kem með keppnistreyjur fyrir strákana en þeir þurfa sjálfir að skaffa buxur/stuttbuxur, sokka, skó, osfrv.

2 - Ég mæli eindregið með því að strákarnir spili í gervigrasbuxum eða öðrum síðbuxum. Gervigrasið í Reykjaneshöllinni er þannig að ef maður rennir sér á því þá fær maður líklega brunasár. Ef strákarnir vilja endilega keppa í rauðu Haukastuttbuxunum sínum þá geta þeir bara verið í þeim yfir síðbuxurnar

3 - Ég hvet alla til þess að temja sér þann sið að vera jákvæðir við hliðarlínuna og hvetja liðið í stað þess að einblína á einstaklinginn. Segja "og skora svo Haukar" og "flott gert Haukar" í staðinn fyrir "Skora svo Siggi" eða "frábært hjá þér Siggi". Þið náið pælingunni :)

4 - Við verðum að mestum líkindum með 4 lið (það kemur í ljós eftir æfinguna á morgun föstudag hvort við þurfum að draga fjórða liðið úr keppni) og það er því mikill handagangur í öskjunni þegar leikirnir fara að rúlla. Með mér á mótinu verður einn aðstoðarþjálfari en ég mun til viðbótar snapa í lið með mér 3 hressa foreldra til þess að vera umsjónarmenn eins liðs. Hlutverk þeirra verður einfaldlega það að halda liðinu saman þegar ekki er verið að spila, vera með á hreinu hvenær og hvar næsti leikur er og sjá til þess að enginn hverfi og missi af einhverju.
Sjáumst hress á sunnudaginn

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Akstursleiðbeiningar að Reykjaneshöllinni

Það eru víst ekki allir sem hafa komið í Reykjaneshöllina og því set ég hérna leiðbeiningar hvernig á að komast þangað.
Þið akið suður með sjó í átt að flugvellinum og beygið til hægri af Reykjanesbrautinni, inn í gömlu Njarðvíkina, á milli Bónusverslunar (á vinstri hönd) og Bílasölu (á hægri hönd). Þar akið þið í átt að miðbæ Reykjanesbæjar, með sjóinn ykkur á hægri hönd. Þegar þið hafið farið fram hjá Samkaupsverslun á vinstri hönd þá beygjið þið fljótlega til vinstri og ættuð þá að sjá risahús sem svipar til Egilshallarinnar.

Kort af Reykjanesbæ á PDF formi

Ef þið kíkið á þetta kort þá er Reykjaneshöllin rauði kassinn ca. mitt á milli tveggja fótboltavallanna sem sjást á kortinu.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Mót í Reykjaneshöllinni 18. febrúar

Sunnudaginn 18. febrúar heldur flokkurinn á hraðmót Njarðvíkur sem haldið verður í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ frá kl. 09:00-13:00. Það er mæting í höllina kl. 08:30. Spilað verður á fjórum völlum samtímis og við sendum fjögur lið til keppni, sem þýðir að lágmark 32 strákar þurfa að tilkynna þátttöku svo þau fjögur lið verði mönnuð.

Ég dreifði skráningarblöðum á æfingunni í gær, þriðjudaginn 6. feb, en á því blaði var ein kjánaleg prentvilla sem ég vona að allir sjái í gegnum: MÓTIÐ ER 18. FEB EN EKKI 3. FEB eins og stendur á einum stað á blaðinu!

Það kostar 1200 krónur á haus og innifalið í því er pizzaveisla í lokin, bikar fyrir sigurliðin. Þennan 1200 kall þarf ég að fá í allra síðasta lagi á föstudeginum 16. febrúar - en helst fyrr - því ef okkur tekst ekki að ná 32 strákum á mótið þá þarf ég að draga eitt liðið úr keppni. Svo ég vonast eftir fljótum og jákvæðum viðbrögðum frá ykkur foreldrum.

Það þarf í sjálfu sér ekkert að fylla út þetta þátttökublað sem ég dreifi, það má einnig bara hitta á mig og koma 12oo kallinum til mín.

Þessi hraðmót hjá Reykjanesliðunum eru ávallt vel skipulögð og heppnuð. Þtta verður örugglega bara fjör. Alla vega er þjálfarinn orðinn mjög spenntur fyrir því að sjá strákana "in action" :)